Færsluflokkur: Lífstíll
2.6.2008 | 15:21
Bara gaman
Ég fór til tannlæknis í dag og það er svo sem ekkert gaman. Að vísu er hann Ingimundur ósköp indæll og ekkert slæmt að sitja í stólnum hjá honum og slappa af. Ferðalagið héðan frá Blönduósi og á Sauðárkrók er það sem var svo gaman. Ég ákvað að fara á vespunni minni. Ég held að vinnufélögunum hafi ekki alveg litist á þetta en ég fór varlega (fer alltaf varlega). Ég var ekkert svo lengi. Klæddi mig vel og þeysti svo af stað. Þetta er hið endanlega frelsi. Veðrið frábært, fjallasýn í allar áttir, þetta er að lifa. Ætli endi ekki með að ég fái mér alvöruhjól. Takk Jón Páll fyrir að benda mér á þennan ferðamáta. Ég vakti mikla athygli sá ég og best var á bensínstöðinni. Ég ákvað að taka bensín á Króknum þó ég hafi verið alveg viss um að komast heim á því sem var á hjólinu en betra að vera öruggur. Ég keypti mér drykk í leiðinni og sagði svo við afgreiðslustelpuna að ég væri með bensín á dælu 4. Hún trúði greinilega ekki alveg því sem hún sá því hún spurði hve mikið ég hefði tekið. 330 kr. Já 330 kr. Svona magn taka ekki margir þessa dagana.
kv.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2008 | 22:59
Loksins
Loksins tími til að vinna í húsinu. Það er alltaf brjálað að gera síðustu dagana fyrir útskrift og í ofanálag var ég búin að trassa eitt og annað sem þurfti að klára. Svo var ég að útskrifa dóttur mína úr grunnskóla. Skrítið að næsta vetur á ég ekkert barn í skólanum þar sem ég kenni.
Ég var að flísaleggja um helgina. Það gekk ekkert mjög hratt en ég kláraði herbergið hans Erlings í gær. Ég byrjaði á þvottahúsinu í dag. Ég var búin að kaupa z lista til að setja á milli parketsins og flísanna. Ég fann ekki járnsögina mína sem betur fer. Það var verið að vinna í húsinu við hliðina á mér og ég ákvað að athuga hvort ég fengi ekki lánaða sög þar. Það stóð ekkert á því. Ég veit ekkert hver strákurinn er sem lánaði mér sögina, en hann er útlenskur. Smá stund kom hann yfir til mín og sá að ég var að gera tóma vitleysu og leiðrétti mig, sem betur fer. Það var mesta basl að koma þessum lista niður. Ég er samt að vona að þetta sé í lagi. Núna man ég ekki hvort ég ætlaði að hafa þröskuld eða fellilista á forstofuhurð. Þarf a´finna út úr því fyrir morgundaginn svo ég geti byrjað á forstofu.
Berglind og Auðun kíktu í gærkveldi. Fyrsta ferð Auðuns til að skoða .
Palli á móti kom og gaf mér ráðleggingar varðandi að mæla fyrir sólbekkjum. Seinni partin var ég svo að vandræðast með hvernig ég ætti að hafa flísarnar í forstofunni, langs eða þvers. Hringdi í Lilju og hún var alveg ákveðin þvers. Ég er sammála henni þ.a. Lilja þvers verður það.
Svo var síðasta úrlausnarefni dagsins (margar ákvarðanir að taka um smæstu mál). Átti ég að taka endaflísina í tvennt, eins og á að gera eða leyfa mér að vera með bút í annan endann. Palli og Stebbi Páls voru fyrir utan hjá Palla og greinilega komnir langt með að leysa heimsgátuna og því kallaði ég í þá og fékk ráðleggingar. Það skilaði heilmiklu því þeir höfðu auðvitað heilmikið til málanna að leggja. Takk strákar.
Erling kom svo og hjálpaði í kvöld.
Góða nótt
Anna Magga
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2008 | 22:30
Rifsið komi niður
Mig hefur alltaf langað í rifsberjarunna (alveg síðan í Noregi þegar ég var 16 ára og mamma bjó til rifsberjahlaupið sem er það besta sem ég hef fengið ennþá). Í fyrra keypti ég nokkrar plöntur og Inga nágranni minn gaf mér nokkrar en ég var ekki búin að finna góðan stað og hafði því bara hent þeim í kartöflugarðinn en í vor átti að finna stað, hér á Hólabrautinni. Það varð þó ekki úr því og núna á ég rifsberjarunna við nýja húsið mitt. Lára nágranni minn kom út og tók myndir fyrir mig. Það fylgir ein með af henni. Nú er að þrengja að mér í tíma. Ég er að fara út eftir 9 daga og flísarnar ekki nærri því komnar á! Þetta hlýtur þó allt að hafast.
Það er álagstími í vinnunni núna. Ég kom heim kl 10 í kvöld og sé fram á að verða álíka lengi á morgun en eftir það ætti að fara að hægjast á.
Góða nótt.
Anna Magga
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2008 | 07:28
Byrjað að flísaleggja
Ég byrjaði að flísaleggja um helgina eins og ég ætlaði að gera. Gekk þó ekkert sérstaklega hratt. Ég keypti mér flísasög í einni Reykjavíkurferðinni minni í vetur. Þegar ég ætlaði að fara að koma henni saman voru engar leiðbeiningar um hvernig ætti að gera það. Þetta kostaði margar ferðir heim eftir verkfærum. Þetta hafðist þó allt. Fyrsta sögun var kolvittlaus hjá mér en allt gekk þetta fyrir rest. Mér tókst ekki að klára herbergið hans Erlings enda ákvað ég að vera í garðinum eftir hádegið. Það þurfti svo sem að gera það og ef ekki í veðri eins og var í gær, hvenær þá.
Nokkrar myndir frá flísalagningu.
Kv
Anna Magga
Lífstíll | Breytt 4.7.2008 kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2008 | 09:37
Parket komið á
Loksins, loksins. Kláraði parketið í gær. Átti svo sem bara eftir að setja niður tvær fjalir og saga eina en vildi fá það fest á filmu (nei tölvukubb, skelfilegt þegar góð og gild orðatiltæki hafa ekki lengur merkingu). Ég er oftast að brasa ein þannig að það er enginn til að taka myndir. Vildi vera á myndunum sjálf. Alltaf saman athyglisþörfin. Er að baka brauð og þegar það verður búið ætla ég að byrja á flísunum. Er spennt en líka aðeins stressuð því ég hef aldrei gert þetta áður en er búin að fá ráðleggingar hér og þar og svo les maður sjálfshjálpina hjá Húsasmiðjunni. Það er snildarsíða en þeir mættu alveg setja fleira inn. Ég hafði heldur aldrei lagt parket áður og held það sé bara þokkalega gert. Ég sé að minnsta kosti ekki margar misfellur. Hulda og Erling komu til að taka myndir. Takk fyrir það.
Kv
Anna Magga
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.5.2008 | 00:07
Hugsað um barn
Í dag upplifði ég einn skemmtilegasta dag í vinnunni sem ég man eftir. Það eru vordagar hjá okkur þannig að hefðbundinni kennslu er lokið og öll próf frá. Við ákváðum að fá verkefnið hugsað um barn til okkar en það gengur út á að nemendur á unglingastigi fá dúkkur sem eru í raun tölvur og eru forritaðar eins og raunveruleg börn heim með sér eina helgi. Þeir þurfa að sinna öllum þörfum barnsins sjálf því þau eru með auðkenni um úlnliðinn sem barnið skynjar og því er ekki hægt að henda barninu í mömmu eða litlu systur. Við ákváðum að taka dúkkurnar á fimmtudegi þar sem 10. bekkur er að fara í skólaferðalag á sunnudaginn. Nemendur mættu því með börnin með sér í skólann í morgun mis mikið sofin og æði mörg ósofinn. Fyrsta korterið fór í að ræða hvaða barn hefði sofið lengst og hvaða barn hefði vaknað oftast og mikill metingur í gangi varðandi það. Þetta var eiginlega eins og maður væri staddur í saumaklúbbi ungra mæðra en ekki í skólastofu í unglingadeild. Það var gaman að sjá hve vel nemendur hugsuðu um börnin sín. Margir urðu pirraðir þegar var grenjað á þá en snéru sér svo bara að því að sinna þörfum barnsins og með ólíkindum hve mikla umhyggju börnin fengu. Umræður á kaffistofunni voru að sjálfsögðu um þetta og alls staðar þar sem ég hef komið í dag hefur verið rætt um börnin.
Hér fylgja nokkrar myndir úr skólanum.
Kv
Anna Magga
Lífstíll | Breytt 26.5.2008 kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2008 | 22:17
Parketið
Núna er ég alveg að verða búin að leggja parketið. Ég byrjaði miðvikudag 14. maí. Binni hjálpaði mér fyrsta kvöldið og Bóbó kom og gaf ómetanlegar ráðleggingar. Takk fyrir það Bóbó.
Fyrsta myndin er eftir fyrsta kvöldið. Á fimmtudegi og föstudegi brasaði ég ein en gekk ótrúlega vel. Margt sem hann karl faðir minn hefur kennt mér í gegnum tíðina gagnaðist. Parketið er þannig að það þarf að leggja alla lengjuna í einu ef vel á að vera og það var ekki alveg auðvelt ein en þrjóskan að drepa mig og mesta furða hve vel gekk. Næsta mynd er frá laugardagsmorgni og svo frá kl 16 á laugardag og sú síðasta er frá laugardagskvöldi og þá er ótrúlega mikið komið. Nokkur vandamál komu þó upp og flest þess eðlis að ekki var hugsað alveg nógu vel um það sem var verið að gera. Ég áttaði mig ekki á því þegar ég var komin að herbergjunum og mátti henda 2 fjölum af því að ég sneið ekki rétt úr. En ég keypti nóg af parketi og gerði ráð fyrir að gera nokkur mistök.
Á laugardegi og sunnudegi hjálpaði Lilja vinkona mín mér heilmikið og það munar mikið um að fá hjálp. Enda gekk mun hraðar þá daga. Takk Lilja.
Mynd af Lilju fylgir með og ein af mér.
Ég hefði getað klárað í kvöld en ákvað að festa það áfilmu þegar síðasta fjölin yrði söguð og færi niður en allir uppteknir við knattspyrnu í kvöld þannig að það verður klárað á morgun.
Góða nótt
Lífstíll | Breytt 4.7.2008 kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2008 | 19:29
Hvítasunnuhelgin
Kæra dagbók.
Um hvítasunnu komu vinkonur mínar Sigrún, Helen og Tobba til mín til að mála. Ég var að alla vikuna á undan fram yfir kl 11 á kvöldin til að klára sparslvinnuna ( svo kláraði Jón síðustu umferð og gerði það mjög vel) til að allt væri klárt fyrir málningu. Það tókst þó ekki alveg en stelpurnar spörsluðu smá í restina. Það voru endalaust að finnast göt sem við sáum ekki í fyrstu umferð og meira að segja nokkur eftir aðra umferð. Þetta hafðist þó allt og ég held að nú séu ekki fleiri göt.
Hér koma nokkarar myndir af okkur vinkonunum við málningarvinnuna. Fyrirgefðu Sigrun hve myndin af þér er slæm en hún er þó sú besta.
Kv
Lífstíll | Breytt 4.7.2008 kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2008 | 17:52
Gamlar myndir af vinnu í húsinu
Núna er ég að gera tilraun því mig langar að koma inn gömlum myndum af því sem hefur verið gert í húsinu og þeim sem hafa komið við sögu. Mér fannst það ekki ganga nógu vel eins og ég gerði það á föstudaginn enda endaði ein mynd inni tvisvar.
Það gekk ekki þ.a. þar til ég hef tíma til að finna betri aðferð verð ég að nota þá sem ég kann þó hún sé seinleg. Hér eru myndir af mér við vinnu á fyrstu dögum. Fyrst var að sparsla og pússa loftið og varð ég að gera það að mestu sjálf því krakkarnir mínir voru í prófum og þurftu að einbeita sér að þeim. Þau komu þó aðeind og hjálpuðu smá. Binni og Karen komu líka og hjálpuðu. Þær vinkonur Jóhanna og Karen settu vel af málningu á sjálfa sig og sennielga eitthvað á hvor aðra.
Lífstíll | Breytt 4.7.2008 kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2008 | 22:56
Nýja bloggið mitt!
Ekki átti ég von á að ég ætti eftir að blogga en ég er að gera svo spennandi hluti að ég ákvað að halda dagbók um þá (vonandi að ég haldi það út). Þar sem ég þykist vera í takt við tímann þá heldur maður auðvitað dagbók á netinu sjánalega öllum, eða er það ekki?
Forsagan að blogginu mínu er sú að í janúar síðastliðnum ákvað maðurinn minn fyrrverandi að yfirgefa mig. Um það bil viku seinna ákvað ég að það væri ekki heimsendir. Í þessari stöðu eru sennilega bara tvær leiðir, leggjast í sorg og sút eða halda áfram með lífið. Ég valdi þá seinni.
Tveimur sólahringum eftir að það var endanlegt að eiginmaðurinn til 21 árs ætlaði að fara frá mér fór ég í göngu eftir enn eina svefnlausa nótt. Ég gekk um bæinn og allt í einu blasti við mér hús í byggingu. Auðvitað vissi ég af þessu húsi en hafði ekki verið að leita mér að húsi fram að þessu og því ekkert að spá í það. Á þessu andartaki ákvað ég að kaupa húsið. Ég hringdi í pabba til að athuga hvort hann væri ekki til í að verja hluta af sumrinu hjá mér við að klára að standsetja húsið. Auðvitað var pabbi til í það. það var því ekkert annað að gera en ganga í að kaupa húsið. Það gekk nú ekki alveg snuðrulaust fyrir sig. Fyrst fékk ég rangar upplýsingar varðandi lánamál og gerði kauptilboð sem ég gat ekki staðið við. Það tók rúman mánuð að finna út úr því en það gekk því foreldrar mínir lánuðu mér veðí sínu húsi. Það þurfti að taka ákvörðun um á hvaða byggingarstigi átti að kaupa húsið og niðurstaðan var sú að kaupa það tilbúið undir tréverk.
Næst var að finna innréttingar. Ég var strax ákveðin í að kaupa eldhúsinnréttingu frá Ikea. Ég fór þangað með tillögu sem ég hafði gert og henni var breyt og húnlagfærð í samræmi við ráðleggingar starfmanna þar. Þegar þessu var lokið var tillögunni minni hent! Já bara sí svona, ekkert til á blaði um það hvernig innréttingin átti að vera. Núna er búið að teikna aftur eldhús og vonandi að það sé klárt því nú fer að styttast í að ég þurfi að fá innréttinguna.
Næst var að finna baðherbergisinnréttingu og var það erfiðast því ég fann ekkert sem mig langaði í. Niðurstaðan varð sú að ég kaupi eldhúsinnréttingareiningar sem eru eins og eldhúsinnréttingin. Ekki gekk vandræaðalaust að finna hurðir sem mig langaði í en að lokum sættist ég á hurðir hjá Agli Árnasyni. Ég fékk tilboð í þær en gat ekki pantað þær fyrr en tveimur mánuðum seinna. Mér hafði verið lofað að verðið myndi ekki breytast þar sem það lá fyrir að ég gæti ekki pantað strax. En viti menn. Hurðirnar voru pantaðar í síðustu viku og höfðu hækkað um 31% frá fyrra tilboði.
Húsið var svo afhent miðvikudaginn 7. maí og mikil gleði. Ég var langt komin með að sparsla og pússa en fékk málara til að fínpússa gifsið fyrir mig.
Vinkonurnar Tobba, Helen og Sigrún komu til mín um hvítasunnuna og við fórum langt Það var þó ein umferð eftir og fór ég langt með hana á annan í hvítasunnu. Jóhanna dóttir mín hefur verið dugleg síðan og kláraði að mála í gær með aðstoð Karenar vinkonu sinnar.
Miðvikudagskvöldið var svo hafist handa við að parketleggja. Binni vinur Erlings sonar míns hjálpaði mér af stað (fyrst fengum við þó ómetanlegar ráðleggingar frá Bóbo pabba Binna).
Ég brasaði ein í parketinu í gær og aftur í dag og komst bara nokkuð langt. Þetta er ferlega spennandi og skemmtilegt. Það er svo gaman að sjá húsið vera að fá karakter. Það breyttist heilmikið við að mála en þegar það er að koma mynd á gólfin líka.... það er alveg frábært.
Ekki meira í kvöld.
Góða nótt
Anna Magga
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Anna Margrét Valgeirsdóttir
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 604
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar